Í lok 10. bekkjar standa nemendur á ákveðnum tímamótum - skólaskyldu lokið og nú ráða þeir hvort þeir fara í frekara nám eða út á vinnumarkaðinn. Nám í framhaldsskóla er ekki skylda en samkvæmt lögum er fræðsluskylda til 18 ára aldurs. Það þýðir að nemendur sem ljúka 10. bekk eða eru orðnir 16 ára fá allir inngöngu í framhaldsskóla og foreldrar hafa aðgang að upplýsingasíðu (inna.is) um nám barna þeirra þar til þau verða 18 ára.
Á höfuðborgarsvæðinu eru 16 framhaldsskólar auk Fjölsmiðjunnar. Skólarnir eru allir ólíkir og mikilvægt fyrir nemendur að kynna sér sérstöðu þeirra og skólabrag vel áður en ákvörðun er tekin um næstu skref.
Framhaldsskólarnir hafa boðið upp á opið hús fyrir nemendur og forráðamenn þeirra og höfum við hvatt alla nemendur til að nýta sér það - fara í skólana og finna “andann”/“lyktina” í skólanum … ”langar mig að vera þarna næstu árin?” Síðastliðið vor var ekki hægt að bjóða upp á þessi opnu hús þar sem samkomubann var og það er ekki víst að það sé hægt núna í ár. Þá skiptir máli að fara inn á heimasíður skólanna og kynna sér það nám sem er í boði þar.
Inntökuskilyrði í framhaldsskóla
Framhaldsskólum er heimilt að gera sérstakar námskröfur vegna innritunar á einstaka brautir og eru þær yfirleitt aðgengilegar á heimasíðu hvers skóla. Til þess að komast inn á bóknámsbrautir sem leiða til stúdentsprófs þarfa nemendur t.d. í flestum skólum að hafa náð B og yfir í íslensku, stærðfræði og ensku. Í skólum sem eru með áfangakerfi bjóða flestir upp á undirbúningsnám í þessum greinum, þ.e. 1. þreps áfanga.
Innritunarferlið
Í lok febrúar byrjun mars fá forráðamenn póst frá Menntamálastofnun með upplýsingum um innritun í framhaldsskóla og nemendur fá bréf með lykilorði í skólanum. Náms- og starfsráðgjafi mun þá fara með nemendum skref fyrir skref yfir innritunarferlið.
Nemendur sækja um í tveimur skólum og innan hvors skóla tvær brautir. Í fyrsta val fer sá skóli sem nemendur vilja fyrst og fremst komast inn í og í annað val sá sem kemur næstur þar á eftir. Það þarf að skoða vel inntökuskilyrðin á þær brautir sem sótt er um því valið þarf að vera raunhæft, þ.e. að staða nemandans í námi sé sú sama og krafist er til að komast inn á brautina.
Framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu
Fjölbrautaskólinn í Breiðholti