Kennsluhættir
Víkurskóli er nýsköpunarskóli og er lögð áhersla á skapandi hugsun og hönnunarhugsun, nemendalýðræði, teymiskennslu og samþættingu námsgreina. Í öllum árgöngum eru kenndar svokallaðar uglur sem er samþætting námsgreina og eru verkefni unnin þematengt ýmist sem hópa- eða einstaklingsverkefni. Allt námsefni og fyrirmæli eru birt nemendum í google classroom.
Hugtakið nýsköpun er skilgreint í íslenskri nútímamálsorðabók á eftirfarandi hátt:
Það að stuðla að framförum með nýjum hugmyndum, verklagi eða uppgötvunum. Nýsköpun er lykillinn að nýjum lausnum, bættu verklagi og lausn flókinna viðfangsefna. Þess vegna er hæfnin til að vera nýskapandi umbreytandi (e. changemaker) mikilvæg fyrir einstaklinginn.
Víkurskóli byggir undir þessa hæfni í kennsluaðferðum og nálgun viðfangsefna. Skapandi hugsun er lykilhæfni þegar kemur að því að vera virkur og öflugur þátttakandi í samfélaginu. Að hafa hæfni og búa yfir getu til að hugsa út fyrir boxið, leita nýrra lausna sem byggja á fyrri reynslu og upplifun, takast á við áskoranir og mæta mótlæti skiptir miklu máli. Enginn ætti að sitja með hendur í skauti þegar leysa þarf mál, hvort sem þau eru einföld eða flókin. Skapandi hugsun gefur ekki kost á því að sitja með hendur í skauti og bregðast ekki við. Skapandi hugsun leysir úr læðingi ófyrirséðan auð sem ekki var þekktur, auð sem kostar ekkert annað en að virkja hugann. Að virkja ímyndunaraflið er okkur jafn mikilvægt og að þróa rökhugsun.
List- og verkgreinar eru kenndar í lotum upp alla skólagönguna þar eru fög eins og textíll, myndlist, margmiðlun, leiklist, smíði og heimilisfræði og boðið er upp á fjölbreyttar valgreinar. Einnig er heimspeki, slökun, heilsufræði, hinsegin fræðsla, læsi, skapandi skrif, kynfræðsla og kynjafræði kennd í stuttum lotum.
Ein af sérstöðum Víkurskóla eru svo kallaðar uglur þar sem kennsla er samþætt annars vegar í íslensku, náttúrufræði, samfélagsfræði og upplýsinga- og tæknimennt og hins vegar í ensku, íslensku, samfélagsfræði og upplýsinga- og tæknimennt. Uglur eru skipulagðar af ugluteymum þar sem sjónum er beint að styrkleikum hvers og eins kennara. Lögð er mikil áhersla á fjölbreytt verkefni og þau samtvinnuð og metin út frá hæfniviðmiðum allra námsgreinanna. Samvinna nemenda er mikil og er aðferðum leiðsagnarnáms beitt í uglum líkt og í öðrum fögum í Víkurskóla. Lögð er áhersla á skapandi skil og nemendum skapaðar þær aðstæður að þeir geti nýtt sér tæki og tól skólans til þess. Nemandinn er hvattur til þess að hafa áhrif á námið og axla ábyrgð á eigin námi.
Uglur eru í stöðugri þróun og eru nú kenndar í öllum árgöngum. Í 8. og 10. bekk eru sex klukkustundir á viku í uglu en í 9. bekk sjö klukkustundir á viku. Allur árgangurinn er á sama tíma í uglu og er nemendum skipt upp í mismunandi hópa allt eftir viðfangsefni hverju sinni. Ein ugla getur spannað 2-4 vikur, allt eftir umfangi.
Skólinn er einn af þekkingarskólunum í Leiðsagnarnámi og starfsmenn hafa kosið Uppeldi til ábyrgðar til stuðnings í agamálum.
Víkurskóli er þátttakandi í þremur Erasmus+ verkefnum og á þessum fyrstu starfsárum skólans hafa verið farnar margar ferðir bæði með og án nemenda.
Víkurskóli hefur fengið regnbogavottun Reykjavíkurborgar sem við erum afar stolt af.
Við erum í ferli um að vera réttindaskóla UNICEF í samvinnu við félagsmiðstöðina.
Í Víkurskóla er lögð rík áhersla á gott foreldrasamstarf t.d. með opnum húsum tvisvar á ári